Ég vil ekki vera vinur þinn

Ekkert persónulegt og ekkert illa meint, en ég vil ekki vera vinur þinn ef þú ert fyrirtæki, félagasamtök, vara, þjónusta, frægur persónuleiki sem ég þekki ekki persónulega … 
...þ.e. þá vil ég ekki vera vinur þinn á Facebook.

Við fáum öll reglulega Facebook vinarbeiðnir frá einhverju af ofangreindu, einhverju öðru en einstaklingum. Fæst okkar gera sér grein fyrir því af hverju þau eiga ekki að vilja vera vinir okkar og af hverju við ættum ekki að “adda” þeim. Og allt of mörg þeirra sem sjá um Facebook fyrir fyrirtækin sín, vörur o.s.frv. gera sér ekki grein fyrir mistökunum sínum. 
Hér eru 4 ástæður fyrir því að aðrir en einstaklingar eiga ekki að setja upp einstaklingsprófíl á Facebook:


Nr. 1 - vinur getur skoðað Facebook prófílinn þinn - vilt þú að fyrirtæki geti skoðað hverjir vinir þínir eru, hvað þú ert að pósta og myndirnar úr partýinu síðustu helgi, eða af krökkunum þínum að leika út í garði? - ég veit að ég vil það ekki. Það er einfaldlega ekki málið.

Nr. 2 - ef þú gerir einstaklingssíðu fyrir fyrirtækið þitt, félagasamtök o.s.frv. getur þú lent í því fyrirvaralaust að Facebook taki hana niður. Það er einfaldlega skýrt kveðið á um það í reglunum að slíkir prófílar séu eingöngu fyrir persónulegar síður einstaklinga. Þú getur verið búinn að safna fullt af vinum og vúps! Allt farið!

Nr. 3 - þú getur bara eignast mest 5 þúsund vini á persónulegum prófíl. Þú vilt ekki takmarka það hversu marga aðdáendur síðan þín er með. Hugsaðu stórt! Einu einstaklingarnir sem hafa heimild til að hafa fleiri en 5 þúsund vini á Facebook eru víst Mark Suckerberg og Barack Obama. Svo að ef þú ert ekki stofnandi Facebook eða fyrsti svarti forseti Bandaríkjanna - þá legg ég til að þú setjir upp viðeigandi síðu ;)

Nr. 4 - fyrirtækjasíðurnar bjóða upp á fullt af tækjum og tólum sem hjálpa þér að nýta hana sem best. T.d. Insights, sem gefur þér fullt af upplýsingum, eins og hversu margir “læka” síðuna, af hvaða kyni, á hvaða aldursbili, er fólk að commenta og líka við það sem er póstað o.fl. o.fl. Smelltu hér til að fá góða grunnkynningu á því hvaða upplýsingar þú færð úr Insights.

Þetta er ósköp einfalt. Ef þú ert ekki einstaklingur (sem ég þekki persónulega) þá vil ég ekki vera vinur þinn á Facebook. En ef þú ert með fyrirtæki, vöru eða annað þess háttar sem mér líkar, þá er ég alveg tilbúin að smella á “like” takkann.

No comments:

Post a Comment